Sumardagurinn fyrsti – drög að góðum degi

Sumardagskort
Sumardagskort voru jafnvel algengari en jólakort. Mynd: Þjóðfræðistofa

Nú berast fregnir af teistum í fjöru og þröstum sem vekja Strandafólk með sínum morgunsöng. Tjaldurinn lætur í sér heyra, stelkurinn er kominn á stjá með sín varnaðarorð, gæsirnar eru orðnar ástfangnar – vorið er að koma. En við vitum að vorið kemur ekki með látum á einni nóttu, enda er það þekktur undirtónn þjóðarsálarinnar að góðir hlutir gerist hægt ef þeir eiga að endast.

Um þetta leyti, þegar veturinn er að missa völdin á náttúrunni kemur dagur sem sumum finnst jafnvel hjákátlegur: sumardagurinn fyrsti. Mörgum finnst í raun sumarið vera víðs fjarri á deginum þeim, minningar um kulda, snjó eða slagveður tengjast þessum degi – en samt er einhver hátíðleiki í loftinu. Enda er hér á ferðinni gamall hátíðisdagur sem lengi var einn sá allra stærsti á almanaksárinu.

Minningar um vindrellur, litlar fánaveifur, skrúðgöngur og tombólur eru á meðal þeirra atriða sem fólk á besta aldri minnist á þegar spurt er út í bernskuminningar um sumardaginn fyrsta. Í seinni tíð verður að viðurkennast að hátíðarbragur dagsins hefur látið nokkuð á sjá. Á því eru að vísu ýmsar undantekningar. Má sem dæmi nefna skrúðgöngur sem sumsstaðar eru farnar á þessum degi, svo sem handan Húnaflóans á Hvammstanga, þar sem sjálfur Vetur konungur og Sumardísin hafa formleg valdaskipti við hátíðlega athöfn ár hvert.

Ég er búinn að skoða fáeinar persónulegar frásagnir fólks sem lýst hefur deginum á segulbandi Árnastofnunar eða í spurningalistum þjóðháttasafns Þjóðminjasafns Íslands. Þessir einstaklingar sem ég rýndi í voru allir fæddur fyrir aldamótin 1900 og eru sumir þeirra fæddir hér á Ströndum. Tilgangurinn er að draga fram fáein atriði sem þóttu mikilvæg á sumardaginn fyrsta hér áður fyrr og hér sé ekki eitthvað jákvætt og skemmtilegt sem við í dag gætum jafnvel tekið upp og heiðrað með okkar nánustu.

Sumargjafir

Sumargjafir eru nokkuð sem margir minnast á. Einn heimildarmaður Árnastofnunar lýsir því pínu dapurlega hvernig slíkt þekktist ekki á bænum sem hann ólst upp á, en heyrði að börn á öðrum bæjum fengu slíkar gjafir á sumardaginn fyrsta. Kona nokkur úr Dýrafirði segir á annarri upptöku frá minningum sínum um sumargjafir sem alltaf voru smáar en persónulegar, helst eitthvað sem fólk bjó sjálft til. Hún segist hafa haldið í þá hefð fram á fullorðinsár að gefa sínum nánustu litla, en persónulega sumargjöf. Á síðustu öld var til siðs að senda sumardagskort, og voru þau jafnvel algengari heldur en jólakort sem síðar áttu eftir að taka yfir hefðina.

Börn og fullorðnir léku sér saman

Það eru býsna margir sem minnast þess með hlýju að á sumardaginn fyrsta lagði fullorðna fólkið niður venjubundin störf og lék sér við börnin. Ef veður var gott var farið í leiki utandyra, börn og fullorðnir saman. Ein kona minnist þess sérstaklega þegar hún var barn að einn roskinn maður um áttrætt lék sér við hana og aðra krakka á sumardaginn fyrsta, og gaf hann ekkert eftir í leiknum! Feluleikur var líka býsna vinsæll sumsstaðar, þá var farið í feluleik utandyra ef veður var gott, en inni þegar illa viðraði. En kjarninn var sá að börn og fullorðnir léku sér saman og nutu þess að sögn jafn mikið.

Sumardagskökur, lundabaggar og pönnukökur

Að gera vel við sig í mat og drykk var býsna mikilvægt, og tala sumir um að þá hafi verið hafðu matur sem jafnaðist á við jólamat. Í Bjarnarfirði voru steiktar sérstakar sumardagskökur, sem voru eins og hveitikökur, auk þess sem fólk fékk þar jafnvel heitt súkkulaði á morgnana áður en haldið var til morgunverka. Á einum stað var á haustin lagt í súr vænir lundabaggar, svið eða slátur, í sérstaka tunnu sem geymd var á vísum stað og opnuð á sumardaginn fyrsta. Víða er talað um að fólk hafi fengið heitt súkkulaði á þessum degi og pönnukökur með.

Sumardagshretið

Svo er það veðrið! Öll vitum við að í apríl er enn allra veðra von, þó svo að sólin sé farin að hækka á lofti. En í kringum sumardaginn fyrsta er að sumra mati von á vondu veðri, öðru nafni hreti. Það hret er kallað sumardagshret. Dagarnir fyrir sumardaginn fyrsta nefnast sumarmál (þeir eru frá laugardegi til miðvikudags, sumardagurinn fyrsti er síðan alltaf á fimmtudegi) og talað var um að búast mætti við sumarmálahreti, en af því afloknu myndi vel vora. Hret á þessum árstíma var sem sagt fyrirboði um góða tíð framundan.

Sem sagt, ef við drögum saman þessar upplýsingar hér að ofan gætum við ef til vill búið til þjóðlega dagskrá að góðum sumardeginum fyrsta, sem stenst öll viðmið um smitvarnir á covid-tímum. Dagskráin mætti kannski vera svona:

  • Vakna og búa til heitt súkkulaði í morgunmat.
  • Gefa sínum nánustu litla gjöf, helst eitthvað sem maður hefur föndrað sjálfur undanfarna daga þar sem sumarmálahretið hefur komið í veg fyrir mikla útivist!
  • Fara í leiki, helst leiki sem krefjast hreyfingar, því framundan er jú mikið af heitu súkkulaði og góðum mat! Fullorðnir skulu gjarnan kenna þeim sem yngri eru leiki sem þau lærðu í bernsku – yngra fólk kennir síðan þeim eldri uppáhaldsleikina sína.
  • Elda góðan hádegisverð. Gaman væri að hafa sumardagskökur. Súrmatur er kostur. En einnig er í lagi að bjóða upp á sýrt grænmeti fyrir þá sem kjósa það heldur, kannski er gott að setja slíkt ofan á sumardagskökurnar.
  • Feluleikur þar sem allir eru með. Helst skal vera utandyra og klæða sig þá eftir veðri.
  • Í drekkutímanum er gott að hafa heitt súkkulaði og pönnukökur.
  • Svo er fallegt að gefa öllum sumardagskort, hafa þau persónulegt og fallegri kveðju inn í sumarið.
  • Í kvöldmat skal hafa hátíðarmat, góða steik, fisk eða hnetusteik… lundabagga – eða bara það sem hugurinn girnist!
  • Eftir mat er sniðugt að spila borðspil og njóta samverunnar.
  • Þegar öllu þessu er lokið er gott að njóta þreytunnar, leggjast á koddann og hlakka til þess að vorið er á næsta leyti með fjaðraþyt og söng!